Skip to main content

Matarvenjur 6 ára barna samræmast ekki ráðleggingum um neyslu á grænmeti, ávöxtum, fiski og lýsi. Þá er samsetning orkugefandi efna og trefjaefnainnihald ekki eins og best verður á kosið.  Mikilvægt er að leita leiða til að bæta mataræði íslenskra barna.

Þetta kemur fram í landskönnun á mataræði sex ára barna, sem birt var í Læknablaðinu árið 2013. Einnig kemur fram að sex ára börn fá stóran hluta orkunnar, um 25 %, úr vörum  með lága næringarþéttni sem eru t.d.  kex, kökur, gos- og svaladrykkir, sælgæti, snakk og ís.

Þátttakendur í könnunni voru 162 börn sem valin voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Matur og drykkur sem börnin neyttu var skráður í þrjá daga og fæðuval og neysla næringarefna voru borin saman við fæðutengdar ráðleggingar og ráðlagða dagskammta fyrir viðkomandi næringarefni.

Óhollustan vex og viðbættur sykur

Ýmislegt bendir til þess að ávaxta- og grænmetisneysla Íslendinga hafi almennt aukist á undanförnum árum. Þó er neyslan enn langt frá þeim viðmiðum sem tengd hafa verið minni líkum á ýmsum sjúkdómum. Innan við fimmtungur barna í þessari rannsókn neytti ávaxta og grænmetis í samræmi við ráðleggingar. Innlendar rannsóknir benda til þess að hlutfall óhollustu í fæði barna aukist með hækkandi aldri. Um 20-25% af heildarorku í fæði barnanna í þessari rannsókn kom úr fæðuflokkum, sem hafa takmarkað næringargildi. Heildarorkuneysla var þó í samræmi við áætlaða orkuþörf. Rannsókn á mataræði 15 ára unglinga árið 2003 sýndi að um þriðjungur af heildarorku kom úr kökum, kexi, sælgæti,  ís, gosdrykkjum og öðrum sætindum. Þessir fæðuflokkar eru einmitt þeir sem í er  hvað mest af viðbættum sykri í fæði íslenskra barna og kom fram bæði í þessari rannsókn sem og eldri rannsóknum.

Offita og sjúkdómar

Neysla 6 ára barna í þessari rannsókn á kexi, kökum, sælgæti og ís (í grömmum á dag) er sambærileg og meðal fullorðinna einstaklinga (18-80 ára) í landskönnun á mataræði 2010-2011 þrátt fyrir að orkuþörf sex ára barna sé einungis um 60% af orkuþörf fullorðinna. Þetta leiðir af sér að offitu, en nú er svo komið að tæplega 60 % landsmanna eru of þungir eða eiga við offitu að stríða. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að gæði fitu og kolvetna er ábótavant í fæði íslenskra barna, en rannsóknir benda til þess að báðir þættir geti haft umtalsverð áhrif á þróun sjúkdóma. Þörf er á markvissum aðgerðum og íhlutun í mararæði meðal barna í landinu sem miða að því að bæta mataræði barna og unglinga. Rannsóknir hafa sýnt að íhlutun í formi fræðslu og verkefna í samstarfi við heimili og skóla er áhrifarík leið til þess að auka ávaxta- og grænmetisneyslu barna, eða koma í veg fyrir minnkandi neyslu með hækkandi aldri.

Heimild: www.landlaeknir.is

Matartíminn er í eigu Sölufélags Garðyrkjumanna

Close Menu

Opnunartími Matartímans er sem hér segir:
Mánudaga til Föstudaga : 08:00 til 16:00

Ef þig vantar frekari upplýsingar þá skaltu endilega
hafa samband við okkur.

Matartíminn
Brúarvogi 2,
104 Reykjavík

570 8900
matartiminn@matartiminn.dev.premis.is